Kíkja í pakkann?

Mér hefur í svolítin tíma langað til þess að birta þessa færslu en aldrei þorað vegna þess að ég skammast mín ef svo má segja fyrir að hafa upplifað þessar tilfinningar. 

Um leið og ég fékk jákvætt ólettupróf var það sameiginleg ákvörðun hjá okkur kærastanum að við ætluðum ekki að vita kynið. Mér fannst tilhugsunin ótrúlega spennandi að kíkja ekki í pakkann fyrirfram enda var okkur alveg sama hvort kynið við fengjum því það sem skiptir mestu máli er að allt sé í lagi með barnið. Ég fann það samt á ættingum og vinum hvað þeim fannst hálf fúlt að fá ekki að vita kynið.

DSC_0567

Strax á 10 viku fékk ég rosalega sterka tilfiningu um að ég gengi með strák og var ég með þessa tilfinningu út alla meðgönguna. Ég hugsaði um litla bumbukrílið mitt sem strák og þegar ég talaði um það sagði ég alltaf HANN. Mér langaði líka miklu meira að eignast strák.

Í endann var kærastinn minn farinn að efast og var alveg viss um að þetta væri lítil pabba stelpa. Fólk sagði samt við mig að vera ekki með of miklar væntingar því hvað ef þetta væri svo stelpa? Ég var alveg tilbúin að veðja ansi hárri peningarupphæð á það að ég hafði rétt fyrir mér að um lítinn mömmu kút væri að fara fæðast.

Þegar ég var á fæðingardeildinni voru ljósurnar alveg vissar um það líka að ég gengi með strák. Ég veit ekki hvort mín sannfæring hafi haft áhrif á að þær en sammála voru þær mér. En eftir maaaarga tíma af sársauka og vanlíðan fæddist loksins litla kraftarverkið okkar. Fljótlega heyrðist í pabbanum, ég held ég hafi haft rétt fyrir mér – þetta er STELPA! Ég gat engan vegin meðtekið hvað hann hafði sagt og fékk barnið í fangið og GUÐ ég upplifði svo mikla hamingju en pældi hinsvegar ekkert í því hvort þetta væri stelpa eða strákur. Stelpan okkar þurfti að fara á vökudeild strax eftir fæðingu vegna þess að fæðingin tók rosalega á okkur mæðgur en þegar hún var farin ásamt pabbi sínum og fleira fagfólki var ég ein eftir með mömmu minni og ljósunni sem var að ganga frá mér.

IMG_2525
Ég var í svo miklu SJOKKI að ég man, ég talaði endalaust um að ég gæti ekki átt stelpu, ég kunni miklu betur á stráka og kann ekkert að gera neitt í hárið á stelpum og bla (svona er maður klikkaður).  Í rauninni var ég fyrir vonbirgðum því mér var farið að þykja mjög vænt um litla strákinn sem var í bumbunni. Enda hlakkaði ég líka til að sýna og sanna fyrir öllum að ég hafði haft rétt fyrir mér.

Mér fannst ég upplifa einhverskonar missi en samt ekki því ég fékk eitthvað annað en ég vildi. (Það var aldrei staðfest við mig að ég gengi með strák heldur voru þetta aðeins tilfinningar sem ég hafði). Það tók mig aðeins lengri tíma en fyrir kærastann minn að tengjast dóttur okkar, kannski skiljanlegt vegna þess ég bjóst við öðru kyni.  En þið megið alls ekki misskilja mig, ÉG ELSKA Halldóru Líf meira en lífið sjálft í dag og vil allt fyrir hana gera. Hún litar heiminn minn í allskonar litum hvern dag, hún er og verður alltaf mín besta vinkona þessi litla mömmuprinsessa ❤ ❤

IMG_1445

Kynið skiptir mig engu máli í dag, ég er ánægð að stelpan okkar sé heilbrigð og hún er yndislegur gleðigjafi með fallegu bláu augun sín ❤
Það sem hjálpaði mér hvað mest að komast yfir samviskubitið og hugsunina um að ég væri vanþakklát var sú að það sé allt í lagi að vilja annað hvort kynið meira. Það er hvort sem er alltaf 50% líkur á öðru hvoru, og það er mannlegt að vilja annan hlutinn meira en hinn.

Mögulega hefði það verið betra fyrir mig að vita kynið, því þá hefði ég ekki fengið svona mikið sjokk og upplifað allar þessar óþarfa tilfinningar á fyrstu dögunum eftir að hún kom í heiminn. Ég átti að segja strax frá þessum tillfiningum við kærastann minn, móður mína, ljósmóður eða einhvern sem ég treysti því þá hefði ég ekki þurft að burðast með þetta mikla samviskubit fyrstu dagana og mánuðina.

Ég er þakklát á hverjum degi fyrir gullmolann minn ❤

img_3415.jpg

Þar til næst,

Telma